Allir leik- og grunnskólakennarar á Akureyri eiga nú að hafa fengið senda slóð að fréttabréfi desembermánaðar. Fréttabréfið má einnig lesa hér
Ég vona að desembermánuður verði friðsæll og skemmtilegur mánuður í skólastarfi og óska nemendum og kennurum gleðilegra jóla með þökkum fyrir gott samstarf á árinu.
Fréttabréf í desember
Jólin hans Antons – lestrarbók í desember
Ég er alltaf mjög veik fyrir því að vinna verkefni tengd jólum og jólasiðum í desember og sömuleiðis að lesa texta sem tengjast jólum. Við tiltekt í bókahillum nýverið fann ég lítið hefti með jólasögu sem hafði verið fylgirit með danska blaðinu Hjemmet í fyrra. Nú er ég að snara sögunni lauslega á íslensku og er búin með fyrri hlutann.
Vonandi hafa einhverjir kennarar tækifæri til að láta nemendur lesa jólasöguna um Anton í desember. Fyrri hlutann má finna hér
Efnisheimurinn – lykilhugtök á pólsku
Emilía Mlynska hefur nú tekið saman lista með pólskum skýringum á lykilhugtökum úr bókinni Efnisheimurinn. Slíkar hugtakaskýringar eru nemendum mikil stoð og kærkomið að fá slíkt í hendurnar, bæði fyrir nemendur og kennara.
Hugtakalista Emilíu má sjá hér
Nýr vefur: Málið.is
Margir kannast við vef Stofnunar Árna Magnússonar þar sem m.a. var hægt að fá beygingarlýsingar íslenskra orða.
Nú er kominn þar nýr og þægilegur vefur, Málið.is, þar sem hægt er að slá inn orð og þá opnast öll gagnasöfn sem viðkomandi orð tengist. Það geta t.d. verið beygingarlýsing, stafsetningarorðabók, nútímamálsorðabók, íðorðasafn, orðsifjabók o.fl.
Tenging á vefinn er hér
Nýlegt undir „Námsefni – byrjendur“
Ég var að setja skjal undir flipann Námsefni – byrjendur. Það eru stuttir textar til að nota í sóknarskrift. Nemendur þurfa að finna hvaða texti passar við hvaða mynd og skrifa hann. Síðan er hægt að nota texta/myndir til umræðu um daglegt líf nemenda og hvernig þeir skilji textana. Hægt að skoða hér
Viltu leika við mig?
Oft er erfitt fyrir erlenda nemendur að kynnast bekkjarfélögum og finna réttu orðin til að komast inn í hópinn. Það getur verið gott ráð að fá „aðstoðarkennara“ úr bekknum til að þjálfa daglegt, íslenskt mál og auka um leið samveru og kynni. Um að gera að plasta blöðin og klippa út spurningar og svör. Þá reynir líka á að para saman spurningu og rétt svar. Hér eru nokkrar spurningar/svör sem m.a er hægt að nota í slíkt.
Uppfærslur á vef
Síðustu daga hef ég verið að uppfæra vefinn og bæta upplýsingum undir ýmsa flipa hans. Þar má sérstaklega nefna nýjar upplýsingar sem eru komnar undir flipann „Skóli – heimili“ og undir einstök tungumál.
Ný útgáfa af stöðumati er komin undir flipann „Námsmat“ þar sem er búið að uppfæra myndir o.fl.
Að velja hugtök til að læra og skilja
Nemendur og kennarar þurfa oft að velja mikilvægustu hugtök námsefnis til að læra, kenna og skilja. Eftir að hafa rætt og útskýrt hugtakið er gott að vinna aðeins með það, setja það inn í hugtaka kort eða á þann hátt sem hentar hverjum og einum. Þannig er hægt að safna hugtökum inn í möppu og skoða og rifja upp eftir þörfum. Dæmi um eyðublöð sem hægt er að kenna nemendum að nota í slíkri vinnu má finna hér
Nýr tengill með jólatengdu efni
Hér til hægri á síðunni er kominn nýr tengill, Fróðleikur og verkefni tengd jólum, og á næstu vikum mun ég setja þar undir ýmis verkefni, texta og fróðleik um jól og jólasiði.
Verkefni – Dýrin okkar
Undir flipann Námsefni fyrir byrjendur er nú komið nýtt verkefni um dýraheiti. Dýramyndir eru límdar upp á spjöld og nöfnin á hverju dýri skrifuð aftan á. Nemendur geta síðan parað saman nöfn dýranna á móðurmáli allra nemenda bekkjarins.
Síðan má halda áfram með verkefnið og tala um heiti afkvæma, á hverju dýrin lifa, hvar þau búa o.s.frv. Verkefnið má einnig sjá hér