Á vefnum Nýbúar í Giljaskóla, sem smíðaður var af Bergmann Guðmundssyni í Giljaskóla og Hans Rúnari Snorrasyni er að finna bjargir og síður sem hægt er að nota til að aðstoða arabísku mælandi nemendur við að læra íslensku og hjálpa til við að skilja tungumálið betur. Við hvetjum foreldra, nemendur og kennara til að skoða þennan flotta vef.
Lærum íslensku/دعونا نتعلم الأيسلندية
Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla: íslenska sem annað mál, menningarfærni og fjölbreytni í skólastarfi
Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á nokkrum köflum í aðalnámskrá grunnskóla er snúa að nemendum með annað mál en íslensku sem sitt sterkasta mál.
Mestu breytingarnar koma fram í kafla 19.3 íslenska sem annað mál. Hér eru lagðir fram þrepaskiptir hæfnirammar sem skipt er upp í 4 stig byggt á hæfni nemandans í íslensku, óháð aldri. Hæfniviðmið við lok 10.bekkjar hafa einnig verið sett fram fyrir þá nemendur sem ekki eru komnir það langt í íslenskunáminu sínu að hægt sé að meta þá eftir aldurstengdum viðmiðum. Hæfniviðmiðin koma fram í kafla 19.4.
Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á almennum hluta aðalnámskrá, þar eru komnir 3 nýjir undirkaflar í 7. kafla.
- Kafli 7.12 Menningarlæsi. Í þessum kafla er það undirstrikað að menningarlæsi þarf að kynna fyrir og kenna öllum grunnskólabörnum, ekki síst í ljósi þess að allir eiga að njóta sömu réttinda og að allt nám á að byggja á samvinnu, jöfnuði og lýðræði.
- Kafli 7.13 Móttaka nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hér er meðal annars ítrekað mikilvægi þess að vel sé staðið að móttöku nemenda með íslensku sem annað mál og foreldrum þeirra inn í íslenskt skólakerfi, að bakgrunni þeirra, fyrri þekkingu og styrkleikum sé gert hátt undir höfði. Auk þess að stöðumat sé lagt fyrir erlenda nemendur við upphaf grunnskólagöngu í íslenskum grunnskólum.
- Kafli 7.14 Fjöltyngi. Í þessum kafla er áhersla lögð á auðlindina sem er að finna í tungumálinu og mikilvægi þess að viðhalda virku fjöltyngi, jafnt fyrir barnið, foreldra barnsins og samfélagið í heild. Jafnframt er mikilvægi þess að skólar og frístundaheimili setji sér tungumálastefnu undirstrikað.
Samhliða þessum breytingum hefur vefsíðan adalnamskra.is verið opnuð og er stefnan sú að síðan verði lifandi plagg með ýmsum verkfærum sem nýtast kennurum. Hvetjum við alla til að skoða síðuna sem er hlekkur á hér að ofan.
Þegar er komin af stað vinna við námsefni fyrir forstig námsgreinarinnar íslenska sem annað mál og er stefnan sú að unnið verði námsefni fyrir öll stigin á næstu árum.
Innleiðing breytinganna verður kynnt á næstu vikum, en breytingarnar hafa þegar tekið gildi.
Stöðumat fyrir erlenda nemendur
Í gær tókst okkur loksins að halda námskeið um stöðumat erlendra nemenda, sem hefur staðið til að halda í rúmlega eitt og hálft ár.
Námskeiðið héldu fulltrúar úr stýrihópnum sem stóð að þýðingum efnisins og innleiðingu, þær Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Kolfinna Njálsdóttir frá Reykjanesbæ, Aneta Stanislawa Figlarska frá Árborg og Kristrún Sigurjónsdóttir frá Hafnarfirði.
Alls mættu 47 á námskeiðið frá grunnskólum Akureyrarbæjar og úr nærumhverfi bæjarins.
Námskeiðið heppnaðist mjög vel og voru námskeiðsgestir mjög ánægðir. Vonandi tekst okkur innleiða stöðumatið hér fyrir norðan á allra næstu vikum.
Lionsklúbburinn Ylfa býður upp á aðstoð við lestur á Amtsbókasafninu á Akureyri
Lionsklúbburinn Ylfa býður erlendum börnum á grunnskólaaldri á Akureyri upp á lestraraðstoð alla þriðjudaga frá klukkan 16:30 til 17:30 á tímabilinu 19.október – 14.desember á Orðakaffi á Amtsbókasafninu á Akureyri. Börnin þurfa að hafa með sér bækurnar/lesefnið sem þau þurfa aðstoð með.
Námskeið um stöðumat erlendra nemenda
Nú hefur staðið til að við hér á fræðslusviði að stæðum fyrir námskeiði um stöðumat erlendra nemenda á móðurmáli sínu. Vegna takmarkana á samkomuhaldi hefur námskeiðinu nú verið frestað nokkrum sinnum.
Nú vonum við að þetta takist hjá okkur í þetta skiptið. Námskeiðið verður haldið í húsnæði Háskólans á Akureyri í stofu M 101 frá kl. 11-15:30 þriðjudaginn 9.nóvember.
Skólastjórnendur hafa fengið upplýsingar um þetta mikilvæga námskeið fyrir kennara – en best er að fjórir til fimm komi frá hverjum skóla.
Það eru kennsluráðgjafar í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Árborg sem hafa þýtt efnið úr sænsku og kynna notkun þess.
Námskeið um stöðumat erlendra nemenda frestast enn
Í mars árið 2020 stóð til að við hér á fræðslusviði stæðum fyrir námskeiði um stöðumat erlendra nemenda á móðurmáli sínu. Vegna takmarkana á samkomuhaldi hefur námskeiðinu nú verið frestað enn einu sinni, en drög að nýrri dagsetningu hefur verið sett niður en það er 9. nóvember n.k. Skólastjórnendur munu fá upplýsingar um þetta mikilvæga námskeið fyrir kennara sendar aftur á næstu vikum – en best er að fjórir til fimm komi frá hverjum skóla.
Það eru kennsluráðgjafar í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Árborg sem hafa þýtt efnið úr sænsku og munu kynna notkun þess.
Takk fyrir samstarf síðustu níu ár!
Nú í upphafi skólaárs 2021-2022 býð ég nýjan kennsluráðgjafa velkominn í minn stað við fræðslusvið Akureyrarbæjar. Það er Ingibjörg Magnúsdóttir og ég óska henni allra heilla í skemmtilegu og gefandi starfi.
Þetta er því síðasta færsla mín á þennan vef sem hefur orðið til eftir aðstæðum hverju sinni; þörfum einstakra nemenda og óskum kennara. Ég hef sett flest mín verkefnahefti hér inn til almennra nota, þýðingar á upplýsingum um skólastarf á Akureyri fyrir erlenda foreldra og margt fleira.
Núna í sumar hef ég gert nokkrar breytingar á uppsetningu, fært verkefni aðeins til og eytt skjölum með upplýsingum sem voru börn síns tíma. Sum skjöl eru á fleiri en einum stað en ég held að það komi ekki að sök og stytti ef til vill tíma sem fer í leit og flettingar.
Á þessum tímamótum vona ég að vefurinn haldi áfram að vaxa, dafna og þróast og að hingað geti kennarar leitað til að afla sér upplýsinga, finna verkefni við hæfi nemenda sinna og svo komið með óskir og ábendingar um það sem betur má fara.
Ég hef átt ákaflega skemmtilegan tíma með nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólanna. Þakka ykkur öllum fyrir samstarfið og gangi ykkur vel í mikilvægu starfi með nemendum og foreldrum þeirra.
Bestu kveðjur,
Helga Hauksdóttir
Stoðþjónusta grunnskólanna
Í skjölunum hér fyrir neðan er að finna upplýsingar um stoðþjónustu grunnskólanna á íslensku, ensku, pólsku og tailensku. Þar má nefna stoðkerfi innan hvers skóla og skólaþjónustu fræðslusviðs, PMTO námskeið fyrir foreldra og sérskóla bæjarins.
Íslenska – enska – pólska – tailenska.
Námskeið um stöðumat erlendra nemenda í haust
Í mars árið 2020 ætluðum við hér á fræðslusviði að standa fyrir námskeiði um stöðumat erlendra nemenda á móðurmáli sínu. Vegna takmarkana á samkomuhaldi hefur námskeiðinu nú verið frestað í þrígang en ný dagsetning hefur verið sett niður en það er 31. ágúst n.k. Skólastjórnendur hafa fengið upplýsingar um þetta mikilvæga námskeið fyrir kennara – en best er að fjórir til fimm komi frá hverjum skóla.
Það eru kennsluráðgjafar í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Árborg sem hafa þýtt efnið úr sænsku og kynna notkun þess.
Vona að allt gangi að óskum í þessari tilraun og alltaf gott að hafa námskeið í upphafi nýs skólaárs1
Upplýsingar um grunnskóla Akureyrarbæjar – uppfærðar 2021
Upplýsingar um starf grunnskólanna á Akureyri hafa nú verið uppfærðar, með tilliti til breytinga á gjaldskrám í frístund og í mötuneyti sem urðu um áramót 2020/21 og breytinga á stjórnendum skólanna. Einnig er búið að uppfæra breytingar á frístundastyrk. Hér eru upplýsingar á ensku, pólsku og tailensku.