Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla: íslenska sem annað mál, menningarfærni og fjölbreytni í skólastarfi

Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á nokkrum köflum í aðalnámskrá grunnskóla er snúa að nemendum með annað mál en íslensku sem sitt sterkasta mál.

Mestu breytingarnar koma fram í kafla 19.3 íslenska sem annað mál. Hér eru lagðir fram þrepaskiptir hæfnirammar sem skipt er upp í 4 stig byggt á hæfni nemandans í íslensku, óháð aldri. Hæfniviðmið við lok 10.bekkjar hafa einnig verið sett fram fyrir þá nemendur sem ekki eru komnir það langt í íslenskunáminu sínu að hægt sé að meta þá eftir aldurstengdum viðmiðum. Hæfniviðmiðin koma fram í kafla 19.4.

Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á almennum hluta aðalnámskrá, þar eru komnir 3 nýjir undirkaflar í 7. kafla.

  • Kafli 7.12 Menningarlæsi. Í þessum kafla er það undirstrikað að menningarlæsi þarf að kynna fyrir og kenna öllum grunnskólabörnum, ekki síst í ljósi þess að allir eiga að njóta sömu réttinda og að allt nám á að byggja á samvinnu, jöfnuði og lýðræði.
  • Kafli 7.13 Móttaka nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hér er meðal annars ítrekað mikilvægi þess að vel sé staðið að móttöku nemenda með íslensku sem annað mál og foreldrum þeirra inn í íslenskt skólakerfi, að bakgrunni þeirra, fyrri þekkingu og styrkleikum sé gert hátt undir höfði. Auk þess að stöðumat sé lagt fyrir erlenda nemendur við upphaf grunnskólagöngu í íslenskum grunnskólum.
  • Kafli 7.14 Fjöltyngi. Í þessum kafla er áhersla lögð á auðlindina sem er að finna í tungumálinu og mikilvægi þess að viðhalda virku fjöltyngi, jafnt fyrir barnið, foreldra barnsins og samfélagið í heild. Jafnframt er mikilvægi þess að skólar og frístundaheimili setji sér tungumálastefnu undirstrikað.

Samhliða þessum breytingum hefur vefsíðan adalnamskra.is verið opnuð og er stefnan sú að síðan verði lifandi plagg með ýmsum verkfærum sem nýtast kennurum. Hvetjum við alla til að skoða síðuna sem er hlekkur á hér að ofan.

Þegar er komin af stað vinna við námsefni fyrir forstig námsgreinarinnar íslenska sem annað mál og er stefnan sú að unnið verði námsefni fyrir öll stigin á næstu árum.

Innleiðing breytinganna verður kynnt á næstu vikum, en breytingarnar hafa þegar tekið gildi.

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.