Takk fyrir samstarf síðustu níu ár!

Nú í upphafi skólaárs 2021-2022 býð ég nýjan kennsluráðgjafa velkominn í minn stað við fræðslusvið Akureyrarbæjar. Það er Ingibjörg Magnúsdóttir og ég óska henni allra heilla í skemmtilegu og gefandi starfi.
Þetta er því síðasta færsla mín á þennan vef sem hefur orðið til eftir aðstæðum hverju sinni; þörfum einstakra nemenda og óskum kennara. Ég hef sett flest mín verkefnahefti hér inn til almennra nota, þýðingar á upplýsingum um skólastarf á Akureyri fyrir erlenda foreldra og margt fleira.
Núna í sumar hef ég gert nokkrar breytingar á uppsetningu, fært verkefni aðeins til og eytt skjölum með upplýsingum sem voru börn síns tíma. Sum skjöl eru á fleiri en einum stað en ég held að það komi ekki að sök og stytti ef til vill tíma sem fer í leit og flettingar.
Á þessum tímamótum vona ég að vefurinn haldi áfram að vaxa, dafna og þróast og að hingað geti kennarar leitað til að afla sér upplýsinga, finna verkefni við hæfi nemenda sinna og svo komið með óskir og ábendingar um það sem betur má fara.
Ég hef átt ákaflega skemmtilegan tíma með nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skólanna. Þakka ykkur öllum fyrir samstarfið og gangi ykkur vel í mikilvægu starfi með nemendum og foreldrum þeirra.
Bestu kveðjur,
Helga Hauksdóttir

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.